Tuesday, January 31, 2012

Sjal

Ég fékk sjalið sem ég var að vefa um daginn úr vefstólnum í gær :)

Ég er alveg mjög ánægð með hvernig það kom út :)

Og svo tók ég eina mynd af gínunni minni að máta það :P

Sunday, January 29, 2012

Fleira skemmtilegt :)

Ég er nú reyndar alltaf að gera eitthvað skemmtilegt þessa daga :)

Það sem stendur nokkuð mikið uppúr er hvað mér finnst æðislegt að vefa. Ég tók nokkrar myndir af hvað ég er búin að vera að gera á símann minn um daginn til að sýna :)

Þetta var fyrsta verkefnið mitt: rósaband. Þetta virðist vera það sem er erfiðast, þannig að ég er bara mjög ánægð að hafa verið sett í þetta fyrst :)
Svo er hérna annað verkefni. Barnateppi. Ég þarf að öllum líkindum að gera tvö barnateppi og hitt verður blátt, þannig að þá er ég undirbúin fyrir allt :P
Og svo ein mynd af vefstólnum sem ég gerði barnateppið á.

Ég er reyndar búin að vefa sjal líka (sem er reyndar meira eins og trefill) en ég er ekkert búin að taka mynd af því. Það kemur bara seinna :)

Það versta er að ég eigi ekki minn eigin vefstól :P

Og svo erum við alltaf auðvitað að prjóna. Núna var ég að klára barnahúfu. Ég er líka að prjóna sokka í stíl, og svo eru líka vettlingar sem er hægt að gera líka.
Rosa flott :) þótt að ég segi sjálf frá :P Ætli ég hendi ekki inn mynd af húfunni, vettlingunum og sokkunum þegar ég er búin með þetta allt saman.

Svo kom slökkviliðsmaður í skólann til okkar um daginn og var með fyrirlestur um eldvarnir og þessháttar. Svo þegar hann hafði sagt allt sem hann þurfti, fórum við út í garð og fengum allar að prófa að slökkva eld. Ég náði einni mynd af honum slökkva eld, en fattaði að sjálfsögðu ekki að láta einhvern taka mynd af mér slökkva eld :P
Þetta var allavega mjög skemmtilegur skóladagur :)

Ég er líka búin að komast yfir biturleikann að þurfa að gera þennan saumastein sem ég var að segja frá um daginn og mér gengur nokkuð vel með þetta.
Það er ennþá alveg slatti sem ég þarf ennþá að gera, en þetta er allt að koma :)
Og ein nærmynd sem sýnir sporin betur

Það er ekkert annað sem ég hef að sýna, nema ein snúðakaka sem ég bakaði í síðustu viku :)
Hún var greinilega mjög góð fyrst að ég náði ekki að smakka hana. Hún kláraðist áður en ég gat fengið mér... :)

Monday, January 23, 2012

Tvær vikur búnar

Það er alveg merkilegt hvað við erum búin að gera mikið á tveimur vikum í skólanum... Ég er að reyna að taka myndir af öllu, en það er víst bara ekkert alltaf hægt. Til dæmis náði ég ekki að taka mynd af nálapúðanum sem ég þurfti að skila í dag, af því að ég kláraði hann í skólanum í gær og var bara ekki með myndavélina mína með mér. Það er líka voðalega erfitt að taka myndir af því sem ég er vefa, en ég tek bara myndir af þessu öllu seinna :)

En hérna er ég með nokkrar myndir...
Þetta er s.s. það sem fer utanum saumastein sem við erum að gera. Þessi aðferð af bútasaum heitir "Crazy quilting" og ég verð að viðurkenna að þetta fannst mér bara alls ekki skemmtilegt. Ég er ekki bútasaumskona :P
Svo komst ég að því í morgun að við eigum að sauma út í ÖLL SAMSKEYTI á þessu...persónulega finnst mér að kennarinn hefði átt að taka það fram mikið fyrr, af því að þá hefði ég engan veginn haft svona litla búta í þessu...ég verð örugglega heila eilífð að sauma út í þetta...

En svo er önnur mynd af þessu sem sýnir litina betur. Ég er ekki nógu ánægð með hvernig þeir líta út á þessari sem er fyrir ofan...
Hún er eitthvað aðeins skárri allavega

En svo er ég núna líka búin að klára að prjóna tátiljur...
Þær líta alveg út eins og smokkfiskar, finnst mér :P en þetta var í fyrsta skipti sem ég geri kaðlaprjón svona almennilega. Ég hef einhverntímann aðeins prófað mig áfram í því, en það var bara einhver smá prufa sem ég gerði og mér fannst það ekki koma vel út. En þetta er mikið flottara

Og svo ein mynd af mér í þeim. Ég komst samt að því að það er alveg furðulega erfitt að taka góða mynd af sínum eigin fótum :P

Svo gengur annars rosa vel í öllum öðrum tímum sem ég er í. Í þessari viku er ég "númer 1" í eldhúsinu, sem þýðir að ég sé um aðalréttina. Það var djúksteiktur fiskur í orlý deigi, með kartöflum, salati og remolaðisósu. Þetta kom bara mjög vel út fannst mér.

Það gengur líka mjög vel að vefa. Ég man ekki hvort ég var búin að segja að ég væri búin með rósaband, en ég er sem sagt búin með eitt svoleiðis og ég er komin langa leið með barnateppi. Ég er búin með 72cm og teppið á að vera 1m. Ég ætla að vera búin með það fyrir næsta tíma svo ég get byrjað á einhverju öðru. Það er eitthvað svo mikið stress á því að vera bara viku með hvern hlut sem maður gerir. Það eru auðvitað bara takmarkaðir vefstólar í boði og við eigum allar að gera 4 hluti og af þeim verður að vera amk 1 rósaband, 1 værðarvoð og 1 barnateppi.

Jæja...þá er best að hætta í tölvunni og fara að læra. Ég þarf víst að vera búin með slatta af útsaum sem fyrst :P

Thursday, January 19, 2012

Sokkar

Ég var að klára fyrsta sokkaparið sem ég prjóna á ævinni :)


Mér finnst stroffið vera furðulega langt, en ég fékk víst ekkert að ráða neitt um þessa sokka. Nema litinn :)

Wednesday, January 18, 2012

Húsó :)

Ég er búin að vera í Hússtjórnarskólanum núna í eina og hálfa viku og mér finnst alveg magnað hvað ég er búin að gera mikið af verkefnum á svona stuttum tíma :)

Skólinn byrjaði auðvitað á því að við fengum fullt af ótrúlega flottu dóti svo við gætum gert allt þetta sem við eigum að gera :)

Þetta er allt saumadótið sem ég fékk...

og hérna er prjónadótið :)

Svo er ég í eldhúsinu alla daga nema föstudaga og ég er m.a. búin að búa til blómkálssúpu, kakósúpu, brauð, snúðaköku, möffins, pönnukökur og svo um daginn bjó ég til sítrónufrómas :) hann var alveg ótrúlega góður :P þótt ég segi sjálf frá... og svo um helgina bjó ég hann aftur til heima af því að Jóhanna var svo spennt fyrir honum, og auðvitað tók ég mynd :)


Ég þurfti aðeins að sýna hæfileikana mína með rjómasprautu...maður þarf að kunna þetta þegar maður vinnur í ísbúð ;)

Annars er ég líka næstumþví búin að klára ullarsokka (ég tek mynd af þeim seinna, þegar þeir eru alveg tilbúnir) Ég er mjög stolt af þeim. Ég hef einhvernveginn aldrei náð að prjóna sokka áður. Mér fannst hællinn alltaf eitthvað ómögulegur, en með aðstoð kennara var fyrsti hællinn frekar auðveldur, og ég þurfti ekki einusinni uppskriftina fyrir seinni hælinn ;)

Svo gengur fáranlega vel að vefa. Ég er strax búin með eitt rósaband og búin með 37cm af barnateppi (sem á að vera 1m á lengd) Ég gat ekki tekið mynd af rósabandinu fyrst að það snýst uppí vefstólinn þegar maður er að vefa það og kennarinn lætur nokkra nemendur gera sama verkefnið á sama vefstólinn án þess að taka hin verkefnin af, til að spara efni í uppistöðina og tímann sem fer í það að taka það af og svo binda fyrir næsta verkefni. Þetta er víst meira en að segja það :)

Við eigum svo að mæta einn þriðjudag eftir skóla í þæfingu, aðeins til að kynnast því hvernig maður þæfir og að búa til efni sem maður notar seinna til að sauma barnaskó. Ég gerði rosalega bleikt efni til að gera þessa skó :) og við gerðum líka trefil úr móhair ull sem er svo mjúk að það er alveg ótrúlegt :)
Svo er önnur mynd sem sýnir litina betur...
Dökk gráu þræðirnir sem liggja ofaná þessu dökk bláa, er silki sem er þæft ofaná ullina til að setja punktinn yfir i-ið, eins og kennarinn orðaði það :)

En ég ætla að taka fleiri myndir af verkefnunum sem ég klára, þegar ég klára þau og set þau hér, þannig að þið sjáið hvað ég er dugleg í skólanum :)

Dagmar Ýr