Wednesday, January 18, 2012

Húsó :)

Ég er búin að vera í Hússtjórnarskólanum núna í eina og hálfa viku og mér finnst alveg magnað hvað ég er búin að gera mikið af verkefnum á svona stuttum tíma :)

Skólinn byrjaði auðvitað á því að við fengum fullt af ótrúlega flottu dóti svo við gætum gert allt þetta sem við eigum að gera :)

Þetta er allt saumadótið sem ég fékk...

og hérna er prjónadótið :)

Svo er ég í eldhúsinu alla daga nema föstudaga og ég er m.a. búin að búa til blómkálssúpu, kakósúpu, brauð, snúðaköku, möffins, pönnukökur og svo um daginn bjó ég til sítrónufrómas :) hann var alveg ótrúlega góður :P þótt ég segi sjálf frá... og svo um helgina bjó ég hann aftur til heima af því að Jóhanna var svo spennt fyrir honum, og auðvitað tók ég mynd :)


Ég þurfti aðeins að sýna hæfileikana mína með rjómasprautu...maður þarf að kunna þetta þegar maður vinnur í ísbúð ;)

Annars er ég líka næstumþví búin að klára ullarsokka (ég tek mynd af þeim seinna, þegar þeir eru alveg tilbúnir) Ég er mjög stolt af þeim. Ég hef einhvernveginn aldrei náð að prjóna sokka áður. Mér fannst hællinn alltaf eitthvað ómögulegur, en með aðstoð kennara var fyrsti hællinn frekar auðveldur, og ég þurfti ekki einusinni uppskriftina fyrir seinni hælinn ;)

Svo gengur fáranlega vel að vefa. Ég er strax búin með eitt rósaband og búin með 37cm af barnateppi (sem á að vera 1m á lengd) Ég gat ekki tekið mynd af rósabandinu fyrst að það snýst uppí vefstólinn þegar maður er að vefa það og kennarinn lætur nokkra nemendur gera sama verkefnið á sama vefstólinn án þess að taka hin verkefnin af, til að spara efni í uppistöðina og tímann sem fer í það að taka það af og svo binda fyrir næsta verkefni. Þetta er víst meira en að segja það :)

Við eigum svo að mæta einn þriðjudag eftir skóla í þæfingu, aðeins til að kynnast því hvernig maður þæfir og að búa til efni sem maður notar seinna til að sauma barnaskó. Ég gerði rosalega bleikt efni til að gera þessa skó :) og við gerðum líka trefil úr móhair ull sem er svo mjúk að það er alveg ótrúlegt :)
Svo er önnur mynd sem sýnir litina betur...
Dökk gráu þræðirnir sem liggja ofaná þessu dökk bláa, er silki sem er þæft ofaná ullina til að setja punktinn yfir i-ið, eins og kennarinn orðaði það :)

En ég ætla að taka fleiri myndir af verkefnunum sem ég klára, þegar ég klára þau og set þau hér, þannig að þið sjáið hvað ég er dugleg í skólanum :)

Dagmar Ýr

1 comment:

  1. Gaman að fá að fylgjast svona með því sem þú ert að gera í skólanum vina mín

    ReplyDelete